Einhvern tímann á milli 29. maí og 11. nóvember 2020 lét tímaritið China Scientific Data vísindagrein úr seinasta tölublaði 2019 hverfa. En þá var skráningarstofa búin að skrá greinina undir auðkenninu doi:10.11922/csdata.2019.0018.zh og tengja það vefslóðinni http://www.csdata.org/p/308. Þó að vefur tímaritsins kannaðist ekki við að sú vefsíða væri til, þá á vefsafn Internet Archive eintök af greininni frá 29. maí 2020 og fyrr.
Gagnagrunnur yfir veirur sem hafa verið rannsakaðar af kínverskum vísindamönnum var umfjöllunarefni greinarinnar. Þar á meðal erfðaupplýsingar náskylds ættingja CoV-SARS-2 veirunnar sem var rannsakaður í Veirustofu Wuhan. Erfðaupplýsingar sem Kínverjar báðu um að yrðu afmáðar úr bandarískum tölvukerfum.
Tímaritið birti greinina árið 2019, um þremur mánuðum eftir að gagnagrunnurinn hafði reyndar verið tekinn niður af netinu. Tímaritið reyndi að fela greinina árið 2020, á svipuðum tíma og önnur vefsíða sem minntist á að þessi gagnagrunnur hefði nokkurn tímann verið til var einnig látin hverfa af vef nýsköpunar- og upplýsingatækniráðuneytis Alþýðulýðveldisins.