Einhvern tímann á milli 29. maí og 11. nóvember 2020 lét tímaritið China Scientific Data vísindagrein úr seinasta tölublaði 2019 hverfa. En þá var skráningarstofa búin að skrá greinina undir auðkenninu doi:10.11922/csdata.2019.0018.zh og tengja það vefslóðinni http://www.csdata.org/p/308. Þó að vefur tímaritsins kannaðist ekki við að sú vefsíða væri til, þá á vefsafn Internet Archive eintök af greininni frá 29. maí 2020 og fyrr.
Gagnagrunnur yfir veirur sem hafa verið rannsakaðar af kínverskum vísindamönnum var umfjöllunarefni greinarinnar. Þar á meðal erfðaupplýsingar náskylds ættingja CoV-SARS-2 veirunnar sem var rannsakaður í Veirustofu Wuhan. Erfðaupplýsingar sem Kínverjar báðu um að yrðu afmáðar úr bandarískum tölvukerfum.
Tímaritið birti greinina árið 2019, um þremur mánuðum eftir að gagnagrunnurinn hafði reyndar verið tekinn niður af netinu. Tímaritið reyndi að fela greinina árið 2020, á svipuðum tíma og önnur vefsíða sem minntist á að þessi gagnagrunnur hefði nokkurn tímann verið til var einnig látin hverfa af vef nýsköpunar- og upplýsingatækniráðuneytis Alþýðulýðveldisins.
Athugasemdir
Virðist hafa vitað hvernig áróðursmeistarar, falsfréttamenn og upplýsingaóreiðuskaparar vesturlanda starfa. Rannsóknir á skyldum veirum segir okkur ekkert og skyldar veirur eru til dæmis venjuleg kvefveira. Sennilega eru engar veirur eins mikið rannsakaðar og ættingjar CoV-SARS-2.
Vagn (IP-tala skráð) 27.2.2025 kl. 15:15
Tvær náskyldustu veirur CoV-SARS-2 eru annars vegar leðurblökuveira sem var einungis rannsökuð (og erfðabreytt) í Wuhan og hins vegar leðurblökuveira sem uppgötvaðist á landamærum Laos og Kína löngu eftir að heimsfaraldurinn braust út. En það er vissulega rétt, að það gæti verið tilviljun að náskyldasta þekkta veiran hafi verið til rannsóknar í sömu borg og fyrsta CoViD-19 uppgötvaðist. Á svipuðum tíma og starfsmenn Veirustofu sýndu almenn einkenni sýkingar, eftir að hafa rannsakað hvernig má splæsa geni fyrir broddhvítu (S-prótein) við erfðamengi veiru úr leðurblöku þannig að hún verði bráðsmitandi milli manna.
Þessi grein fjallar bara um viðbrögð kínverskra embættismanna.
Bjartur Thorlacius, 27.2.2025 kl. 15:53
Last þú skýrsluna? Ert þú að segja eitthvað sem þú last í skýrslunni eða eitthvað sem einhver sem þykist vita meira en stóð í skýrslunni segir? Byggir þú á sögusögnum, slúðri, skáldskap?
Þessi grein fjallar bara um rökhugsun námsmanna og trúgirni.
Vagn (IP-tala skráð) 27.2.2025 kl. 16:56
Það sem Bjartur skrifar er það sem ég man eftir úr fréttum. Hann er ekki að búa neitt til. Þessar rannsóknir voru gerðar í Wuhan.
Hinsvegar er ég ósammála því að ekki sé hægt að láta efni hverfa af Netinu. Ég hef séð ýmislegt hverfa sem var til 2020 og þar áður. Það var vefsíða sem fjallaði um ráðstefnu sem Angela Merkel tók þátt í í Wuhan áður en Covid-19 brauzt út og leitt að því líkum að hún hafi tekið þátt í samsæri með Bill Gates. Það efni hvarf. Ekki tilviljun að þá stóð umræðan hæst um falsfréttir og Facebook tók þátt og fleiri í þeirri baráttu.
Það fer ekki allt á Internet Archive eða Wayback Machine. Ég hef leitað að saklausum greinum um tónlist, menningu og fleira, sumt sem ég prentaði út um 2005, finnst ekki. "This website has not been archived yet" kemur upp eða svipuð afsökun.
Það er víst til eitthvað djúpnet og fleira. Hellingur hverfur af netinu.
En áhugaverður pistill samt.
Ingólfur Sigurðsson, 28.2.2025 kl. 01:42
Fleiri en ein skýrsla hafa verið rituð um þetta mál. Til dæmis fyrir bandaríska þingmenn og ýmsar alríkisstofnanir þar í landi og Sameinuðu þjóðirnar en líka af áhugamönnum fyrir almenning.
Sumt af þessu efni sem kínverskir embættismenn tóku af vefsíðum varðveittist bara vegna þess að archive.is náði eintaki. Internet Archive fékk eintök af gögnum þaðan. Sjá: https://thorlacius.blog.is/blog/thorlacius/entry/2311625/.
Bjartur Thorlacius (IP-tala skráð) 4.3.2025 kl. 15:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.