Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vísindagreinar hverfa ekki svo auðveldlega

Einhvern tímann á milli 29. maí og 11. nóvember 2020 lét tímaritið China Scientific Data vísindagrein úr seinasta tölublaði 2019 hverfa. En þá var skráningarstofa búin að skrá greinina undir auðkenninu doi:10.11922/csdata.2019.0018.zh og tengja það vefslóðinni http://www.csdata.org/p/308. Þó að vefur tímaritsins kannaðist ekki við að sú vefsíða væri til, þá á vefsafn Internet Archive eintök af greininni frá 29. maí 2020 og fyrr.

Gagnagrunnur yfir veirur sem hafa verið rannsakaðar af kínverskum vísindamönnum var umfjöllunarefni greinarinnar. Þar á meðal erfðaupplýsingar náskylds ættingja CoV-SARS-2 veirunnar sem var rannsakaður í Veirustofu Wuhan. Erfðaupplýsingar sem Kínverjar báðu um að yrðu afmáðar úr bandarískum tölvukerfum.

Tímaritið birti greinina árið 2019, um þremur mánuðum eftir að gagnagrunnurinn hafði reyndar verið tekinn niður af netinu. Tímaritið reyndi að fela greinina árið 2020, á svipuðum tíma og önnur vefsíða sem minntist á að þessi gagnagrunnur hefði nokkurn tímann verið til var einnig látin hverfa af vef nýsköpunar- og upplýsingatækniráðuneytis Alþýðulýðveldisins.


Þessar þrjá síður lét Kína hverfa vegna CoViD

1. Í september 2019—áður en Alþýðulýðveldið Kína viðurkenndi faraldurinn opinberlega—tók Veirustofa Wuhan niður gagnagrunninn BatVirus yfir hvaða veirur hún hefði verið að rannsaka og erfðabreyta til að gera þær skæðari mönnum og meira smitandi milli manna. Engin veirustofa hafði rannsakað veirur eins skyldar nýju krónuveirunni og einmitt sú í Wuhan.

2. Snemma árið 2020 dró kínverskt vísindatímarit, CSData, til baka vísindagrein um gagnagrunninn og mikilvægi hans til upplýsingamiðlunar um starfsemi veirustofunnar. Vefur tímaritsins minnist ekki lengur orði á þessa fyrrverandi tímaritsgrein, og ritstjórn svaraði ekki fyrirspurn minni um málið. Aðrar greinar sama tölublaðs standa nú á vef tímaritsins eins og enga grein vanti milli þeirra.

3. Tölvukerfi nýsköpunar- og upplýsingatækniráðuneytis Alþýðulýðveldisins, CSDB MSIS, dagsetti sjálfkrafa að gagnagrunnurinn hefði horfið 12. september 2019. Í maí 2020 hvarf tölvukerfið, og allar upplýsingar um uppitíma gagnagrunna kínverska vísindasamfélagsins, af netinu. Viðkomandi ríkisstofnun, CNIC, svaraði ekki fyrirspurn kollega míns um málið.


Þegar tengdir aðilar eignast skráð félag

Þegar tengdir aðilar eignast samanlagt ráðandi hlut í skráðu félagi, þá ber viðkomandi að bjóðast til að kaupa hlut hvers hinna eigendanna. Viðkomandi er sá sem eignaðist seinasta hlutabréfið sem vantaði upp á til að samanlagður hlutinn yrði ráðandi. Ætli skyldan hvíli á hvoru hjóna ef þau verða tengdir aðilar við að giftast? En foreldri ef það öðlast yfirráð með ættleiðingu? En ef arfur dreifist á fjölskyldu, þannig að þau öðlast yfirráð án þess að neinn meðlimur hafi erft hlutsbréf seinna en hinir?

Í 1. mgr. 111. gr. laga um yfirtökur nr. 108/2007 (vvl.) er kveðið á um úrræði Fjármálaeftirlitsins þegar aðili, sem tilboðsskyldur er samkvæmt 100. gr. laganna, setur ekki fram tilboð innan tilboðsfrests. Í ákvæðinu segir nánar að ef aðili sem er tilboðsskyldur setur ekki fram tilboð innan tilboðsfrests eða innan fjögurra vikna frá því að Fjármálaeftirlitið hefur úrskurðað um tilboðsskyldu vegna samstarfs getur Fjármálaeftirlitið fellt niður allan atkvæðisrétt viðkomandi aðila í félaginu. Skulu þeir hlutir þá ekki taldir með við útreikning á því hve miklum hluta hlutafjár farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum. Sama gildir ef aðili fylgir ekki skilyrðum skv. 3. mgr. 100. gr. a, þar sem segir að Fjármálaeftirlitið geti bundið undanþágu frá tilboðsskyldu skilyrðum um t.d. hámark hluta eða um atkvæðisrétt eða um skyldu til að selja hluti fyrir tiltekin tímamörk, eða brýtur gegn 4. mgr. 102. gr. þar sem kveðið er á um að ef aðili lýsir yfir opinberlega að hann hyggist ekki gera yfirtökutilboð er honum og aðilum í samstarfi við hann þá ekki heimilt að leggja fram slíkt tilboð í sex mánuði frá því yfirlýsing var birt eða að gera nokkuð það er kann að gera hann, eða aðila sem hann er í samstarfi við, tilboðsskyldan skv. 100. gr.

Hvorki er ljóst af eignarfallsmyndunum „viðkomandi aðila,“ né af greinargerð með seinustu breytingu á 111. gr. vvl., hvort einungis sé átt við atkvæðisrétt hins tilboðsskylda aðila sem var nefndur í nefnifalli eintölu í byrjum 1. mgr. 111.gr. vvl., eða tengdra aðila hans. Seinna í 1. mgr. er tekið á þeim möguleika að svipting alls atkvæðisréttar „viðkomandi aðila“ hafi ekki dugað til að losa félagið undan yfirráðum. Af því samhengi er strax ljóst að einhver tengdra aðili er enn með atkvæðisrétt. Svipting alls atkvæðisréttar getur því einungis hafa náð til tilboðsskylds aðila. Aftur er fjallað um niðurfellingu atkvæðisréttar í 2. mgr. og er þar skýrt af orðanna hljóðan að hún nái einungis til tilboðsskylds aðila. Ef aðrir samstarfsaðilar ráða enn yfir skráðu félagi, þó að tilboðsskyldur eða tilboðsskyldir aðilar hafi verið sviptir öllum atkvæðisrétti, þá ber þeim skylda til að afsala sér yfirráðunum. Sé það ekki gert innan tímamarka getur Fjármálaeftirlitið lagt á dagsektir, en ekki er tekið fram hvort að dagsektir megi leggja á atkvæðisréttarsviptu aðilana.




Gestaskráning í sóttvarnaskyni

Til að auðvelda smitrakningu og boðun í sóttkví skrá sumir húsráðendur nafn, símanúmer og kennitölu ókunnugra gesta. Sé krafist aðgangseyris fer skráning fram samhliða greiðslu. En hvernig er best að framkvæma skráningu ef hvorki greiðslu né forskráningar er krafist?

Með best er átt við að sameiginlegir snertifletir séu sem fæstir, heiðarleg skráning sem líklegust og að bið eftir skráningu sé sem styst þó margir mæti samtímis. Hugsum okkur þrjár aðferðir, og gerum okkur í hugarlund hver þeirra sé best. Þrjár aðferðir eru gestabók, ritari og dyravörður með netfang sem er auglýst uppi á vegg, ásamt leiðbeiningum um hvaða upplýsingar þurfi að skrá með tölvupósti.

Gestabók og ritfæri eru snertifletir umfram þá sem fylgja hinum aðferðunum. Að fela ritara að skrá gesti í bók skapar tækifæri til að framfylgja skráningarskyldu og fækkar snertiflötum án þess að breyta biðtíma, og er því betri aðferð. Biðtíminn snarminnkar við að margir gestir geti, með lófatölvum sínum, skráð sig samtímis með tölvupósti til dyravarðar. Enda tekur enga stund fyrir dyravörðinn að staðfesta fullnægjandi skráningu hvers og eins. Tíminn sem það tekur dyravörðinn að útskýra fyrirkomulagið bliknar í samanburði við tímasparnaðinn. Dyravörðurinn er því bestur. Raunar er netfangið og leiðbeiningarnar sogurvegararnir, því dyravörðurinn sjálfur breytir hvorki biðtíma né fjölda snertiflata.

Dyravörðurinn kemur best út í samanburðinum. Athugið að ekki var litið til aukinnar hætta á úðasmiti vegna mannlegrar nærveru í skilgreiningunni á því að aðferð sé best. Það er ósanngjarnt gagnvart gestabókinnk. En gestabókin framfylgir heldur ekki skráningu. Netfang og leiðbeiningar einar eru í ígildi snertilausrar gestabókar, nema með aukinni persónuvernd með því að gestir og gangandi geta lesið gestabók en ekki tölvupóst. Í öllu falli er tölvupóstur besti skráningarmiðillinn, með eða án dyravarðar eftir því hvort ófullnægjandi skráning eða framfylgd skráningarskyldu er mikilvægari. Loks má nefna að sömu húsráðendur ættu að framfylgja hámarksfjölda gesta. Ef einn dyravörður getur framfylgt báðum reglum felst ekki aukin hætta á úðasmiti við það eitt að dyravörður sem er hvort eð er á staðnum framfylgi einnig skráningarskyldu.

Leyfið skráningu inn í hús með tölvupósti -- líka á staðnum, við inngöngu -- og látið póstana berast til dyravarðarins, ef slíkur er fyrir hendi.


Réttur á réttindum

Valdbeiting er í sjálfu sér slæm. Margir, ef ekki flestir, sammælast þó um að réttlætanlegt geti verið að beita valdi til þess að (a) koma í veg fyrir ofbeldi og (b) til að viðhalda rétti. (Sumir styðja einnig beitingu valds til þess að koma á nýjum réttindum eða afnema gömul réttindi. Aðrir eru íhaldssamari.)
 
Þrátt fyrir fræðilegan stuðning við (a) er erfitt að sammælast um hver eigi að dæma um hvenær og hvaða valdi er rétt að beita, og fyrir hvaða sakir. Hefnd, hegning og gæzla eru vægast sagt umdeild. Á aldrei að grípa til vopna? Á frekar öllum að vera jafnfrjálst að refsa hverjum öðrum? Munu þá refsigjarnir þá refsa um of, og vera svo hverjum af öðrum vera refsað fyrir vikið, en hófsamir sitja hjá? Eða á að starfa dómur? Eða bara lagaleg og sálfræðileg ráðgjöf (af eða á) til handa þeim sem vilja hefna?
 
Öllu umdeildara er svo (b). Viðhalda, afnema eða koma á? Hvaða rétti? Hvers vegna?
 
Nú kann örfáum að þykja óþarflega flókið að fylgja einhverjum lögum, og virða einhvern rétt. Hver og einn breyti bara eins og honum þykir best. Maðurinn er hópdýr, svo langflestir munu breyta til hins besta fyrir hópinn. En hverjir eru í hópnum? Hvað er hópnum eiginlega fyrir bestu? Var það konungsveldi Belgíu fyrir bestu að hertaka hálfa Kongó? Kannski. Kannski ekki. Var það ásættanlegt fyrir íbúa Kongó? Aldeilis ekki.
 
Menn geta unnnið að hagsmunum fjölskyldunnar, vinnufélaganna, þjóðarinnar, mannkyns eða alls lífs. Bæði aðferðir og markmið geta virst stangast á. Gott skipulag þarf til að hjálpa mönnum að vinna saman að samrýmanlegum markmiðum, og aftra mönnum sem skemma fyrir öðrum.
 
Til þess er eignarrétturinn ætlaður. En hvað má eiga? Mega svangir stela mat sem liggur annars við skemmdum? Er það brot á réttinum ef markmið þjófanna vegur /augljóslega/ þyngra en þess sem átti? Hvað með refsingar—má brjóta gegn glæpamönnum sem ræna og rupla? Má hegna morðingjum?
 
Eignarrétturinn (a.m.t. eign á eigin líkama) er háður skilyrðum. Það þykir nefnilega í lagi að brjóta eignarréttinn til að verja eignarréttinn. Að hefna með öllum ráðum sem leyfðar eru í sjálfsvörn. Vegna þess að varðveizla eignarréttarins vegur—/augljóslega/—þyngra en nokkurt markmið glæpamanns sem virðir réttinn að vettugi. Honum, sem þótti einmitt nákvæmlega það.

Tryggð fæða

Undanþága frá ostatollum kostar ~415kr./kg. Það er þriðjungur af stykkjaverði, og litlu stærra hlutfall af heildsöluverði. Þegar tollaundanþága þýðir "ekki nema 29% tollur", og það ekki nema fyrir einn osthleif á ári, fyrir þriðja hvert íslenskt mannsbarn, borgað allt að einu ári fyrirfram, þá eru tollar of háir. Hvað ef annað hvern Íslending langar í útlenskan osthleif? Hvað ef suma langar í útlenskan ost á páskunum líka?

Hið sanna er, að undanþága frá toll kostar næstum jafn mikið og tollurinn sjálfur! Þannig virkar jú einmitt markaðsverð, það jafnast út. Nema í matvælum, þar sem tollar koma í veg fyrir að matvælaverð jafnist út. Það er gert til að tímabundin verðlækkun keyri bændur ekki í gjaldþrot, og dragi þannig úr matvælaframleiðslu. Enda er reglulegt offramboð á mat nauðsynlegt til þess að matvælaframleiðsla sveiflist sjaldnast undir það sem þarf til þess að brauðfæða alla menn. Af slíkum niðursveiflum má nefna kal og bruna.

Hið hjákátlega er, að með þessu skapast hérlendis grundvöllur fyrir stopulli rækt á jörðum viðkvæmum fyrir kali. Vonin er kannski sú að kal verði ekki á sama tíma og stórir brunar erlendis. En hvernig væri að við keyptum frekar stöðugari ræktarlönd erlendis? Að við sæum einfaldlega til þess að nóg sé til í Íslendinga, hvort sem það kemur að utan eða úr íslenskri sveit? Hvers vegna ekki að leyfa neytendum að velja á milli stöðugrar offramleiðslu og matarbirgða til vara?

Sumir gætu kosið að eyða peningunum sínum frekar í birgðir af  frostþurrkuðum mat, sem nýtist einnig sem næringarríkur skyndimatur á 1200kr./dag (m.v. þrjár skyndimáltíðir þann daginn), að frátöldum flutningskostnaði. Aðrir myndu styrkja bónda í fjölskyldunni, gegn því að hann lofi að útvega mat þegar þess þarf. Nokkrir kæmu sér upp lager af pizzum sem endast. Aðrir myndu reyna að finna sér trausta matvöruverslun, sem ábyrgist að matur sé í hillunum. Enn aðrir tækju bara áhættuna. En jafnvel þeir myndu njóta þess að geta keypt mat hvaðan sem tekst að framleiða hann það árið, þó að þeir hætti á að verðið rakki upp og niður.

Eða eigum við ekki örugglega öll að fá að borða, óháð því hvort við höfum efni á tollum?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband